Þann 4. janúar fór fram afhending viðurkenninga til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ 2023 á Hótel Hilton.
Á hverju ári veitir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands viðurkenningar til íþróttamanna og íþróttakvenna sérsambanda á sameiginlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í tengslum við kjör á Íþróttamanni ársins. Svana og Mundi hrepptu bikarinn fyrir kven- og karlklifrara ársins 2023 og óskum við þeim innilega til hamingju með viðurkenninguna.
Svana Bjarnason (33 ára) hefur verið ein af sterkustu klifrurum þjóðarinnar undanfarinn áratug. Á síðasta ári tók hún aftur fram keppnisskóna eftir að hafa ekki keppt á Evrópu- eða heimsstigi frá því á unglingsárunum. Hún hafnaði í 73. sæti í heildarkeppni HM (s.s. keppt í bæði grjótglímu og línuklifri) og 56. sæti á heimsbikarmóti í línuklifri í Briancon það sama ár. Árið endaði síðan með því að hún tryggði sér keppnisrétt á úrtökumótaröðinni fyrir Ólympíuleikana 2024 með því að vera efst á heimslistanum af þeim íþróttakonum sem börðust um Universality sætið.
Guðmundur Freyr Arnarsson (24 ára) er margfaldur Íslandsmeistari í grjótglímu og línuklifri. Á árinu sem lauk keppti hann m.a. á Heimsmeistaramótinu í Bern, heimsbikarmótum og Norðurlandamótum fyrir Íslands hönd í bæði grjótglímu og línuklifri. Guðmundur, eða Mundi eins og hann er kallaður, hafnaði í 85. sæti í heildarkeppni HM ( s.s. keppt í bæði grjótglímu og línuklifri). Auk þess er hann Íslandsmeistari í grjótglímu og vann Reykjavíkurleikana 2023.