Norðurlandamótið í línuklifri fór fram í Kaupmannahöfn um helgina og áttu Íslendingar 18 fulltrúa á mótinu í nokkrum aldursflokkum. Mótið var afar sterkt en um 170 þátttakendur voru í heildina.
Sjö íslenskir klifrarar náðu inn í 10 manna úrslit í sínum flokkum, þar af 4 í flokki fullorðinna. Bestum árangri Íslendinga náði Gabríela Einarsdottir í fullorðinsflokki kvenna en hún hafnaði í 6.sæti, með 22+ stig, sem er besti árangur íslenskra kvenna á Norðurlandamóti í flokki fullorðina frá upphafi. Þess má geta að Gabríela er nýkrýndur Íslandsmeistari í línuklifri kvenna en Íslandsmótið fór fram síðustu helgi. Norðurlandameistari kvenna þetta árið varð Ingrid Kindilhagen frá Noregi en hún sigraði mótið með nokkrum yfirburðum, komst hæst í úrslitaleiðinni og náði 33+ stigum.
Norðurlandameistari karla varð Fredrik Serlachius frá Svíþjóð, hann sigrði naumlega með 34+ stigum en sá sem var næstur á eftir honum var með 34 stig. Bestum árangri Íslendinga í karlaflokki náði Guðmundur Freyr Arnarsson en hann endaði í 7.sæti, með 20+ stig. Birgir Óli Snorrason og Stefán Þór Sigurðsson höfnuðu í 9. Og 10.sæti.
Gauti Stefánsson keppti í paraklifurhlutamótsins (flokki fatlaðra). Hann hafnaði í 4. sæti og er fyrsti íslenski paraklifrarinn til þess að taka þátt í verkefni á vegum landsliðsins.
Í ungmennaflokkum komust í úrslit Jenný Þóra Halldórsdóttir í flokki undir 16 ára (U16) en hún endaði í 7.sæti og Paulo Mercado Guðrúnarson og Greipur Ásmundarsson í flokki undir 18 ára (U18) og höfnuðu þeir í 8. og 9.sæti.
Það má því segja að framtíðin sé björt hjá íslensku klifuríþróttafólki sem stefnir enn hærra á næstu árum.