NM í grjótglímu í Helsinki

Fimm Íslendingar komust í úrslit á Norðurlandamótinu í grjótglímu sem fram fór í Helsinki í Finnlandi dagana 15. og 16. mars. Keppendur á mótinu voru rúmlega 200 talsins og var keppt í flokkum U16, U18, U20 og fullorðinsflokki. Ísland sendi 30 keppendur á mótið og stóð hópurinn sig mjög vel í heildina. Fimm komust í úrslit eins og áður sagði og voru það allt kvenkyns keppendur. Í flokki fullorðinna var það Lukka Mörk Sigurðardóttir Blomsterberg sem varð fimmta inn í úrslit en hún endaði síðan í 8. sæti eftir erfiðar úrslitaleiðir. Gabríela Einarsdóttir keppti einnig í fullorðinsflokku kvenna og hafnaði hún í 9.sæti í undankeppninni og rétt missti því af sæti í úrslitum.  Bestum árangri íslenska hópsins náði Jenný Þóra Halldórsdóttir en hún komst á pall þegar hún nældi sér í bronsið í flokki U16 ára. Einnig í úrslitum U16 ára tryggði Dagbjört Lilja Oddsdóttir sér 8. sætið. Agnes Matthildur Folkmann keppti í úrslitum U18 ára, hún var sjöunda inn í úrslitin en átti góðan dag í úrslitum og náði fjórða sætinu. Hekla Petronella Ágústsdóttir náði 8. sæti í úrslitum í sama flokki. Norðurlandameistarar í flokki fullorðinna þetta árið urðu þau Sunniva Øvre-Eide frá Noregi í kvennaflokki og Albin Meyer frá Svíþjóð í karlaflokki. 

Streymi frá úrslitum

Heildarúrslit mótsins

Mynd: Antti Peltola / Kiipeilyareena

Scroll to Top