Úrslit Reykjavík International games, RIG, í klifri fóru fram á stórglæsilegum klifurvegg í Laugardalshöll í kvöld og er þetta er í fimmta skipti sem keppt er í grjótglímu á RIG. Sex keppendur í karlaflokki og sex keppendur í kvennaflokki þreyttu keppni en undanúrslitin fóru fram í Klifurhúsinu á laugardaginn.
Keppnin var æsispennandi, sérstaklega í karlaflokki, efstur eftir undanúrslitin var Valdimar Björnsson en lítill munur var milli keppenda eftir þau. Í úrslitunum var það Guðmundur Freyr Arnarson sem kom sá og sigraði en hann var fór yfirvegaður í leiðirnar og toppaði þær allar í fyrstu tilraun. Ótrúlega flott hjá honum og sigurinn hjá honum mjög sannfærandi. Í öðru sæti varð Birgir Óli Snorrason en hann náði líka að toppa allar leiðirnar en þurfti til þess fleiri tilraunir en Guðmundur og þar skildi á milli þessara frábæru klifrara í þessa skiptið. Valdimar endaði þriðji en hann náði tveimur toppum og þremur miðjum. Í kvennaflokki sigraði með nokkrum yfirburðum Clara Stricker-Petersen frá Danmörku. Clara var fyrst inn í úrslitin en hún er danskur meistari bæði í grjótglímu og línuklifri. Clara toppaði tvær leiðir og náði einnig tveimur miðjum. Önnur varð Gabríela Einarsdóttir en hún náði einni miðju í þremur tilraunum, rétt á eftir henni varð í 3. sæti Agnes Matthildur Folkmann en hún náði líka einni miðju en þurfti sex tilraunir til. Mikil stemming var á mótinu sem sýnt var beint á RÚV2 og var mikill fjöldi fólks sem kom og studdi klifrarana í kvöld.
Útsendinguna má nálgast á vef RÚV.