Umræðuþing KÍ og Ísalp yfirstaðið

Útiklifurþing KÍ og ÍSALP var haldið laugardaginn 14. Október í húsakynnum ÍSÍ að Engjateig. Rafn Emilsson opnaði þingið og Snævarr Guðmundsson hélt tölu um sinn klifurferil og sögu klifurs á Íslandi. Skipuleggjendur þakka Snævarri kærlega fyrir mjög áhugaverðan fyrirlestur og bendum við á að hægt er að nálgast upptöku á Facebook síðu Klifursambands Íslands. Þrjár vinnustofur voru í boði og var skipt upp í sex hópa þar sem tveir hópar í senn tækluðu hvert umræðuefni.

Umræðuefnin og niðurstöður umræðna voru eftirfarandi. 

Aðgengismál
Einróma samþykki að til aðgerða þyrfti að ráðast í. Stofnaður var hópur einstaklinga sem munu leiða þessa vinnu. Ef áhugasamir eru má gjarnan hafa samband við stjórn KÍ eða ÍSALP. Í þeim vinnuhópi munu sitja Björgvin, Elísabet, Laufey.

Klifursiðferði
Flestir voru samþykkir því að siðareglur væri gott að hafa skrifaðar svo auðveldara væri að framfylgja þeim og benda á. Bornar voru fram þýddar siðarreglur frá Bandaríkjunum. Miklar umræður sköpuðust um hvenær sport klifurleið er boltuð og hvenær á ekki að bolta traditional leiðir. Siðareglur munu þarfnast ítrunar síðar.

Gráður
Þar voru miklar og góðar vangaveltur. Voru allir vinnuhópar samþykkir því að samræmi þyrfti að hafa innan svæða, en erfitt væri að bera saman gráður milli svæða þar sem eiginleikar bergsins og klifurstíls getur verið breytilegur milli svæða. Rætt var um franskar og amerískar gráður, og hópast var þar i tvær fylkingar þar sem sumir segja það auðveldara að hugsa i frönskum en mörgum fannst þar sem uppruni klifurs á Íslandi var i amerískum að við ættum að halda i söguna. Við spurningunni “Hver ræður gráðum” komu mjög mörg sjónarhorn, sumir töldu frumfarann bera þá ábyrgð enn öðrum fannst að einstaklingur sem boltar leið bera of mikla ábyrgð og enn öðrum fannst þetta vera í höndum útgefenda leiðarvísa. Flestum fannst mjög gott að geta haft gráðun leiða opna fyrsta árið, þar til breiðari hópur hefur matað sig við hana.

Við viljum þakka þeim sem mættu og lögðu orð í belg en vonumst jafnframt að fleiri sjái sér fært um að mæta næst. 

KÍ fagnar samvinnu allra klifrara því með samvinnu verðum við sterkari og klifuríþróttin sömuleiðis stærri.

 

Scroll to Top